Hríðarveður á Austfjörðum

11.01.2026

Hríðarveður á Austfjörðum

  • Hríðarveðri spáð á Austfjörðum á sunnudagskvöld og mánudag

  • Óstöðugir vindflekar eru til fjalla á Austfjörðum

  • Ekki er búist við snjóflóðahættu í byggð en búast má við aukinni snjóflóðahætta til fjalla

  • Kantaðir kristallar gætu verið í snjónum víða um land og myndað veikt lag

Í kvöld, sunnudag, tekur gul viðvörun vegna hríðar gildi á Austfjörðum. Spáð er norðan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum, sér í lagi sunnantil á svæðinu. Ásamt því er spáð éljum eða snjókomu og verður mest úrkoma norðantil á svæðinu.

Misþykkir vindflekar eru til fjalla á Austfjörðum ofan á harðfenni. Athuganir hafa bent til þess að veikleiki sé í vindflekunum. Í þessum mikla vindi sem spáð er ásamt ofankomu má búast við að vindflekar stækki eða að þeim fjölgi til fjalla og að þeir verði óstöðugir fyrst um sinn. Ekki er ólíklegt að náttúruleg snjóflóð falli á meðan veðrið stendur yfir. Svæðisbundna snjófóðaspáin fyrir Austfirði (fjallaspá) hefur verið færð á appelsínugulan en ekki er búist við snjóflóðahættu í byggð. Þó er viðbúið að samgöngutruflanir verði á svæðinu og vaktin reynir eftir bestu getu að fylgjast með aðstæðum í Grænafelli m.t.t. snjóflóðahættu.

Undanfarið hefur verið éljagangur víða um land og lausamjöll hylur eldri snjó. Kantaðir kristallar hafa fundist í snjóþekjunni á Norðurlandi sem hafa líklega myndast í kuldatíðinni undanfarið. Líklegt er að kantaða kristalla megi finna í snjóþekjunni víða um land. Þá voru einnig aðstæður til myndunar yfirborðshríms sem getur leynst undir nýjum snjó á skjólsælli svæðum.