Líkur á ofanflóðum í asahláku

30.10.2025

Líkur á ofanflóðum í asahláku

  • Búast má við asahláku er rigning og hlýindi ganga yfir landið á föstudag og um helgina.

  • Mestri úrkomu er spáð á Ströndum, Norður-, Austur- og Suðausturlandi.

  • Líkur eru á krapaflóðum og votum snjóflóðum þar sem rignir í snjó.

Spáð er norðaustan hvassviðri og asahláku á morgun, föstudag 31. október, og um helgina. Í dag er víða dálítil él, og snjókoma á köflum suðaustantil, frost 0 til 7 stig. Í nótt á að hlýna og á morgun, föstudag, má búast við hita yfir frostmarki alls staðar á landinu, mest um og yfir 10 stig suðaustanlands. Hlýindunum fylgir úrkoma í formi rigningar á láglendi, en slyddu eða snjókomu efst til fjalla. Úrkoman nær yfir vítt svæði, frá norðanverðum Vestfjörðum og að Suðausturlandi. Mestri úrkomu er spáð á Ströndum, Norðurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi.

Snjóað hefur í vikunni og er fannhvíta jörð að sjá víða. Þar sem snjór er í bröttum brekkum geta lítil vot snjóflóð fallið þegar hlýnar skarpt og rignir, og krapaflóð geta fallið þar sem snjór er í vatnsfarvegum.

Líkur á krapaflóðum og votum snjóflóðum geta aukist á meðan veðrið gengur yfir, sérstaklega á Suðausturlandi, Austfjörðum, Norðurlandi og Ströndum. Ekki er talið að hætta skapist í byggð en Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum.

Uppsöfnuð úrkoma á 72 klukkustundum yfir Íslandi.

Tilkynna ofanflóð

Veðurstofan þiggur gjarnan tilkynningar um ofanflóð. Upplýsingarnar hjálpa okkur að fylgjast betur með aðstæðum og bæta viðbragð.

Aðrar leiðir til að hafa samband

Ef rafræna eyðublaðið hentar ekki er einnig hægt að hafa samband við Veðurstofuna á annan hátt.

Sími

Hringdu í 522 6000 á opnunartíma skiptiborðs.

Tölvupóstur

Sendu upplýsingar á eitt eða fleiri af eftirfarandi netföngum:

Ef rafræna eyðublaðið hentar ekki er einnig hægt að hafa samband við Veðurstofuna á annan hátt.

Hvað á að fylgja með tilkynningu?

Gott er að láta fylgja:

  • mynd af flóðinu, það er skriðu, grjóthruni, krapaflóði eða snjóflóði

  • nákvæma staðsetningu

  • tímasetningu, það er hvenær flóðið féll eða hvenær þess varð vart