24.12.2025
Nýtt
Viðvarandi veikt lag á Norðurlandi
Síðustu vikur hefur verið viðvarandi veikt lag í snjónum á Norðurlandi og Austfjörðum og féllu allnokkur flekaflóð í innanverðum Eyjafirði, Öxnadal og Austfjörðum á þessu lagi. Talið er að þetta lag hafi myndast í kuldatíð seinni hluta nóvember og byrjun desember við aðstæður þegar rakt loft við yfirborð frýs og myndar yfirborðshrím. Snjókoman í byrjun desember lagðist svo ofan á þetta hrím þar sem það var til staðar.

Yfirstandandi hláka og áhrif á snjóinn
Viðvarandi veik lög sem þessi geta varðveist í þó nokkurn tíma í snjónum, sérstaklega þegar kalt er í veðri og mikið frost. Hlýindi stuðla hins vegar að því að veik lög brotni niður. Síðustu daga hefur verið mjög hlýtt á öllu landinu og einnig rigning upp í hæstu fjöll á sunnan og vestanverðu landinu. Áfram er spáð hlýindum og hefur snjór sjatnað og tekið upp. Snjórinn hlýnar við þessar aðstæður á yfirborði og með langvarandi hlýindum nær varminn að vinna sig niður í gegnum snjóinn. Talið er að þessi hlýindi sem nú eru á landinu dugi til að brjóta niður veika lagið sem var til staðar. Blautur snjór á yfirborði getur hins vegar verið óstöðugur þar sem samloðun milli snjókorna minnkar.
Eftir þessa yfirstandandi hláku má búast við að það kólni á ný og vetur taki við á ný. Þá ætti allur snjór á landinu að öllum líkindum að vera orðinn tiltölulega stöðugur og núllstilltur m.t.t. snjóflóðahættu. Það ræðst svo af aðstæðum í vetur hvort það myndist ný veik lög í snjónum sem á eftir að koma ofan á eldri stöðugan snjó.
Snjóflóðavaktin óskar landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.