09.01.2026
Snjóþekjan varð einsleit eftir hlýindi um jólin en kalt hefur verið frá áramótum
Gamall snjór var orðinn að harðfenni, nýi snjórinn er víðast kaldur og léttur
Nýsnævið er líklegast að bindast illa við harðfennið
Kantaðir kristallar eða yfirborðshrím myndast gjarnan í köldu veðri
Lag af köntuðum kristöllum eða grafið yfirborðshrím getur orðið að viðvarandi veiku lagi og valdið aukinni snjóflóðahættu
Umtalsverð hlýindi gengu yfir landið um jólin með sem varð til þess að veikleikar í snjóþekjunni brotnuðu niður og snjóþekjan varð einsleit og stöðug í kjölfar frosts og þíðu. Upp úr áramótum tók að kólna á ný og hefur víða verið fremur kalt og stillt veður síðan. Sá snjór sem eftir var eftir hlýindin er því orðinn að harðfenni.
Éljað hefur í vikunni og er víða köld og létt lausamjöll ofan á eldri snjó. Einnig gætu vindflekar hafa myndast til fjalla ofan á harðfenninu. Gera má ráð fyrir að nýsnævið bindist illa við gamla snjóinn fyrst um sinn. N.k. mánudag er búist við nokkurri snjókomu í norðlægum áttum og því enn frekari líkur á vindflekamyndun til fjalla, sérstaklega á Austfjörðum þar sem spáir mestri snjókomu.
Í kuldatíð sem þessari eru líkur á að kantaðir kristallar myndist innan snjóþekjunnar. Þeir myndast þegar mikill hitamunur er á milli snjóalaga og rakt loft færist frá hlýrri snjóalögum til kaldari. Rakinn kristallast og myndar hvassa kristalla sem bindast illa saman. Lög af köntuðum geta orðið að viðvarandi veikum lögum í snjóþekjunni.
Við þetta má bæta að yfirborðshrím myndast gjarnan í köldu og stilltu veðri þegar rakt loft frýs við yfirborð og myndar þar hrím. Oft nær vindur eða hiti að brjóta niður hrímið en þar sem það helst óáreitt getur það grafist undir snjó og orðið til vandræða þegar vindflekar myndast þar ofan við. Í kjölfarið verður til viðvarandi veikt lag sem getur haldið sér nokkuð lengi í snjóþekjunni, eða allt þar til hláka nær niður á grafna yfirborðshrímið og brýtur það niður.
Víða hafa verið aðstæður til myndunar kantaðra kristalla eða yfirborðshríms undanfarið. Ekki er hægt að útiloka að slík veik lög hafi myndast í snjónum, sérstaklega á N- og A-landi og mögulega Vestfjörðum. Gott er að hafa ofantalið í huga við ferðalög í fjallendi og forðast svæði þar sem vindflekar hafa myndast.