15.10.2025
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur tekið til starfa þennan veturinn en reglubundin snjóflóðavöktun nær yfir tímabilið 15. október til 31. maí. Fram að áramótum verða birtar svæðisbundnar snjóflóðaspár þrisvar í viku; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Eftir áramót verða þær birtar daglega.
Um þessar mundir er snjólaust um allt land og ekki útlit fyrir að vetur konungur láti á sér kræla fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.
Þessa vikuna er árlegur samráðsfundur ofanflóðavaktar Veðurstofunnar með öllum snjóaeftirlitsmönnum landsins. Fundurinn er haldinn á Patreksfirði í ár og er meðal annars fjallað um ýmsar nýjungar fyrir snjóeftirlitsmenn og vaktina ásamt því að rifjað er upp ýmislegt tengt snjóflóðum. Að auki eru vettvangsferðir til að kynnast svæðinu. Fundurinn er mikilvæg samkoma til að efla tengsl allra sem koma að ofanflóðamálum á Veðurstofunni og stilla saman strengi fyrir veturinn.