Snjógryfja í Oddsskarði 10. janúar

11.01.2026

Snjógryfja í Oddsskarði 10. janúar

Snjógryfja var gerð í Háhlíðum í Oddsskarði þann 10. janúar. Gryfjan var gerð í u.þ.b. 520 m hæð í SA-vísandi hlíð. Gryfjan var um 60 cm djúp en heildarsnjódýpt á þessum stað var um 320 cm. Hitastigull var brattur efst í snjóþekjunni en svo nokkuð jafn niður á u.þ.b. 40 cm. Gryfjan sýndi vindfleka ofan á mjúku lagi. Þar fyrir neðan var harðfenni. Skafrenningur var á svæðinu svo ekki var unnt að gera nákvæma greiningu á snjókornum.

Gerð voru stöðugleikapróf; samþjöppunarpróf og útvíkkað samþjöppunarpróf. Þessi próf sýndu bæði veikt lag á rúmlega 30 cm dýpi. Á samþjöppunarprófi féll stöpullinn saman við einangrun. Á útvíkkuðu samþjöppunarprófi féll stöpullinn saman við mjög lítið álag en hann rann ekki fram.

Ljóst er að veikleiki er innan vindfleka á svæðinu. Á þessum stað virtist bindingin við undirliggjandi harðfenni vera nokkuð góð en það er ekki endilega algilt fyrir svæðið. Misþykkir vindflekar eru til fjalla á Austfjörðum ofan á gömlu harðfenni. Kalt hefur verið í veðri og ekki útilokað að kantaðir kristallar séu að myndast í snjóþekjunni. Á mánudag er spáð N/NA hvassviðri eða stormi með snjókomu svo búast má við frekari vindflekamyndun á svæðinu. Ekki er búist við snjóflóðahættu í byggð í þessu veðri.