28.10.2025
Talvert hefur snjóað á SV-horni landsins.
Töluverð snjóflóðahætta á svæðinu
Vegfarendur og börn að leik hvött til að fara varlega
Talsvert hefur snjóað á SV-horni landsins. Áfram er spáð miklli snjókomu í dag og hefur snjóflóðaspá til fjalla á SV-horninu verið uppfærð í appelsínugulan, sem þýðir töluverð snjóflóðahætta. Mikil óvissa hefur verið í veðurspám undanfarinn sólarhring, bæði hvað varðar tímasetningar og úrkomumagn. Nýjustu spár gera ráð fyrri mikilli úrkomu í kringum höfuðborgarsvæðið seinnipartinn og fram á nótt.
Dálítill snjór var fyrir til fjalla á SV-horninu og ekki er vitað hvernig nýi snjórinn binst við eldri snjóinn. Í svona miklu nýsnævi gæti myndast veikleiki innan snjóþekjunnar eða hún loðað illa saman. Í dag og á næstu dögum má gera ráð fyrir hvassri NA-átt á köflum sem gæti myndað vindfleka, aðallega í SV-vísandi hlíðum, og aukið snjóflóðahættu enn frekar.
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar vill minna fólk á að hafa snjóflóðahættu í huga í dag og næstu daga. Þetta á við um fólk sem t.d. ferðast í fjalllendi, hvort sem er fótgangandi, á skíðum, eða vélsleðum, eða börn að leik í bröttum hlíðum.